English (United Kingdom)Íslenska(Iceland)

Um Helgu


“Þegar ég var lítil stelpa elskaði ég að vera úti í náttúrunni, sérstaklega niður við sjó að horfa á fuglana með hundinum mínum.  Ég fann fyrir tengingu við allt í kringum mig, og ég man sérstaklega eftir einni nótt. Það var sumar og klukkan var orðin eitt um nóttina. Ég og vinkona mín vorum að leika okkur að því að fanga fiðrildi í lófana okkar, óska okkur og sleppa þeim svo frjálsum á ný.  Ég upplifði þá yndislegu tilfinningu að ég var eitt með öllu sem er.  Í gegnum barnæsku mína fann ég fyrir vaxandi ást til Jarðarinnar, náttúrunni í heild sinni og hvernig hún birtist hafði sterkar rætur í hjarta mínu.”

Myndlistin er og hefur alltaf verið stór hluti af lífi Helgu.  Myndlistarhæfileikar  komu snemma í ljós og hún fór fljótt að spreyta sig á mismunandi stílbrigðum innan myndlistarinnar. Helga telur sig að mestu sjálfmenntaða í list sinni en áratuga löng reynsla hefur þróað og þroskað færni hennar og stíl. Helga  hefur sótt námskeið hérlendis og erlendis. Einkum tvö þeirra, hjá icona sérfræðingnum  Dr.Yuri Bobrov frá Rússlandi og Detel Aurand frá Þýskalandi, hafa haft sérstaka þýðingu fyrir hana.

Í leit sinni að auknum skilningi á lífinu og tilverunni og upplifun hinna duldu heima hefur Helga kynnt sér austræna og vestræna dulspeki og ýmsar leiðir til mannræktar. Á árunum 1972 -1982 var hún nemandi í yogafræðum ásamt eiginmanni sínum hjá Zophoníasi Pétursyni, swami Dhamananda.  Á veturnar var fræðslan í Reykjavík en á sumrin var Yogaskólinn undir jökli á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Á þessum árum tengdist Helga mikið inn á við sem leiddi til þess að hún hélt áfram að skoða og kynna sér ýmis esoterisk fræði og aðferðir til heilunar. Sú leit og ástundun innri tengingar hefur speglað til hennar að kjarni alls er Eitt. Hvernig sérhvert okkar horfir á lífið, það upplifað og túlkað miðast við þroska hverrar einstakrar sálar á hennar sérstaka stað í tilverunni í  hinum ytra og innra heimi.

Árið 1989 urðu straumhvörf í lífi hennar sem listamaður. Skynjun hennar og tenging við alheimsorkuna og sköpunarkraftinn varð sterkari og magnaðri. Falleg skilaboð frá æðri tilverustigum byrjuðu að birtast í list hennar og síðan þá hefur hún einbeitt sér að gerð estoteriskra mynda, List Sálarinnar.

Til margra ára hefur Helga unnið að gerð málverka er lúta að hinu fallega allt umlykjandi Æðra Sjálfi sem við finnum fyrir í hjörtum og sálum okkar.  Hún talar um málverkin sín sem innri verundundarmyndir, því það lýsir best innihaldi og skilaboðum málverkanna. Málverk Helgu eru unnin upp úr hugleiðslum þar sem áhersla er lögð á einingarvitundina.  Sú tenging og skynjun við allt sem er hefur verið  áhrifamesta orkan í list hennar. Magnþrungin fegurð íslenskrar náttúru og ást Helgu til fjölskyldu sinnar, ástríks eiginmanns, tveggja dætra og móður, hafa einnig verið stórir áhrifavaldar.

Helga er hjúkrunarfræðingur að mennt og bætti við sig stjórnunargráðu árið 1987. Hún er viðurkenndur meðferðaraðili í líföndun sem er aðferð sem vinnur að því að heila tilfinningalíkamann. Í 15 ár hefur hún kennt námskeið sem hún kallar Litir Ljóssins þar sem hún leiðir þátttakendur í gegnum hugleiðslu sem tengir þá við heilunarmátt litanna. Þetta ferli hvetur þátttakendur til að opna sál sína fyrir flæði sköpunar í gegnum myndræna tjáningu.

Raunveruleikar tilverunnar eru óteljandi í stórkostlegu Núinu. Upplifunin af andartakinu undraverður. Þetta er kjarninn í myndlistinni sem Helga býður samferðarmönnum sínum að upplifa. 

 

List sálarinnar helga@artofthesoul.iss. 691 1391